Kæru Slow Food félagar.
Nú er veturinn genginn í garð, frostið lætur á sér kræla. Sumarið var gott, mörg okkar voru eins og kýr að vori, frelsinu fegin, sem fæst okkar hafa leitt hugan að áður. Svo margt sem okkur hefur alltaf þótt sjálfsagt er ekkert svo sjálfsagt lengur.
Covid 19 hefur leitt ýmislegt í ljós. Við sjáum hversu viðkvæm við erum, hversu auðveldlega kerfin okkar gefa eftir. Við sjáum líka styrkinn í okkur, í samstöðunni og allir beri ábyrgð. Þá getum við allt, við getum barist við ósýnilegan óvin og sigrað.
Slow food samtökin hafa sjaldan verið jafn mikilvæg og akkúrat núna. Við eigum öll rétt á Góðum, Hreinum og Sanngjörnum mat. Við þurfum að hlúa að matvælaframleiðslu hér heima, við þurfum að styðja við bakið á okkar frábæru veitingamönnum sem hafa svo ötulega kynnt íslenskar matarhefðir fyrir erlendum gestum undanfarin ár, en nú er sá hópur horfinn í bili. Ferðamenn koma aftur en við þurfum að hafa starfhæfa veitingastaði þegar þar að kemur. Við þurfum að hafa fjölbreytta matvælaframleiðslu í landinu. Fjölbreytta ræktun og búskap. Við öll sem neytendur getum gert svo mikið. Á hverjum einasta degi veljum við hvern við styrkjum, þegar við fyllum á innkaupakerruna okkar. Dagana sem við ákveðum að fara út að borða eða kaupa eitthvað tilbúið. Aurarnir okkar geta gert það að verkum að hægt er að borga rafmagnsreikninginn og halda fólki í vinnu.
Fleirum hefur orðið ljóst hve mikilvægt er að hvert svæði sé sjálfu sér nægt í matvælaframleiðslu. Bæði í fjölbreytni afurða og vinnuafli. Til þess þurfum við að standa saman og raunverulega standa með matnum okkar. Það er ekki nóg að það sé bara á tyllidögum í hátíðarræðum. Við þurfum að standa með matnum okkar í hádeginu á þriðjudegi og á aðfangadag.
Aðalfundur Slow food verður rafrænn í ár, þann 5. nóvember kl 18.
Því þarf að skrá sig á aðalfund fyrir miðnætti þann 4. nóvember, til þess að hægt sé að senda út rafræna tengingu. Á Slowfood.is er hlekkur sem leiðir ykkur í skráningarformið. Aðalfundur er öllum opin en einungis félagsmenn sem voru á félagaskrá og hafa greitt félagsgjöldin viku fyrir aðalfund hafa atkvæðarétt á aðalfundi.
Stjórn Slow food Reykjavík hefur sett inn valgreiðslukröfu í heimabanka til þeirra sem hafa verið áður í félaginu en einhverra hluta vegna ekki endurnýjað aðildina.
Ég hvet alla til að koma með okkur í þessa vegferð, það er margt spennandi í gangi hjá okkur og hægt er að skrá sig í félagið á heimasíðunni.
Með rökkurkveðjum
Dóra Svavarsdóttir
Matreiðslumeistari og formaður Slow food Reykjavík.