Home / Fréttir / Fulltrúar Íslands á We Feed the Planet í Mílanó

Fulltrúar Íslands á We Feed the Planet í Mílanó

KarlsstaðahjónUm helgina hefst ráðstefnan We Feed the Planet í Mílanó sem ungliðahreyfing Slow Food (SFYN) á alþjóðavísu stendur fyrir. Ráðstefnan er ákveðið mótsvar við heimssýningunni í Mílanó, EXPO 2015, sem bar yfirskriftina Feeding the Planet, Energy for Life. Aðalstyrktaraðilar heimssýningarinnar eru stórfyrirtæki eins og McDonalds, Nestlé og Coca-Cola, fyrirtæki sem hafa verið gagnrýnd fyrir að stuðla að ósjálfbærri fæðuframleiðslu í heiminum. Ungliðahreyfing Slow Food ákvað að bregðast við þessari mótsögn heimssýningarinnar og efna til ráðstefnunnar We Feed the Planet þar sem aðilum sem réttilega geta talist brauðfæða heiminn, ungum bændum, smáframleiðendum, kokkum og aktivistum er boðið að koma saman til að taka þátt í hugmyndavinnu, málstofum og mynda tengslanet sín á milli. Nú þegar hafa yfir 2500 manns tilkynnt komu sína frá um 120 löndum og á Ísland fulltrúa þar á meðal.

Hjónin, bændurnir, smáframleiðendurnir og tónlistarmennirnir Svavar Pétur Eysteinsson og Berglind Häsler verða fulltrúar fyrir ungliðahreyfingu Slow Food á Íslandi á We Feed the Planet. Þau hafa komið sér upp búi að Karlsstöðum í Berufirði sem tilheyrir Djúpavogshreppi og stunda þar búskap. Þau hafa staðið að framleiðslu Bulsna, fyrstu pylsna á Íslandi sem eru búnar til afurðum í jurtaríkinu og hafa átt mikilli velgengni að fagna. Á næstu misserum mun svo Sveitasnakk úr rófum sem þau rækta koma á markað. Auk þess spila þau í hljómsveitinni Prins Póló sem Svavar Pétur er forsprakki fyrir. Það er engum ofsögum sagt að þau eru frábærir fulltrúar Íslands í Mílanó þar sem þau munu deila reynslu sinni og hugmyndafræði með heiminum. Við tókum Svavar og Berglindi tali og spurðum þau út í búskapinn, hugmyndafræði þeirra og væntingar þeirra fyrir ráðstefnuna.

Hvað varð til þess að þið ákváðuð að gerast bændur í Berufirði með áherslu á lífræna ræktun?

Þegar við lítum til baka þá virðist þetta allt saman frekar tilviljanakennt en okkur hafði lengi dreymt um að búa í sveit. Áður en við létum slag standa bjuggum við í Reykjavík og rákum einskonar menningarmiðstöð undir heitinu Havarí. Þar kynntum við myndlist, tónlist og bóklist fyrir gestum og gangandi. Þetta gekk glimrandi vel þar til við þurftum að rýma fyrir hóteli. Ætlunin var að opna aftur en við fundum ekki húsnæði á viðráðanlegu verði. Þá ákvaðum við bara að opna aftur úti í sveit. Á meðan við leituðum að drauma jörðinni ákvað Svavar að gerast grænmetisæta og byrjaði að þróa Bulsurnar. Allt það ferli kveikti áhuga okkar beggja á frekari tilraunum á sviði matvælaframleiðslu. Svo þegar við fundum réttu jörðina lá auðvitað beinast við að rækta landið og halda tilraunum áfram. Við erum á leið í lífræna aðlögun svo við erum ekki vottuð enn. Það ferli tekur smá tíma. En það kom ekkert annað til greina en að fara út í lífræna ræktun. Við höfum nú opnað Havaríið aftur með tvisti. Meðfram matvælaframleiðslunni rekum við lítið gestahús og bjóðum hópum í Bulsuveislu eftir pöntunum og höldum tónleika og ýmsa viðburði inn á milli.

Hvaða gildi/hugmyndafræði hafið þið í huga við ykkar störf? 

Jákvæðni, auðmýkt og þakklæti eru grunngildin. Það er gott að byrja daginn á að þakka fyrir það sem hefur áunnist og halda svo áfram að hamast. Það er mikilvægt að hafa gaman að því sem maður er að gera og gera það í sátt við náttúru, dýr og menn.

Nú hafið þið staðið að nýsköpun í matvælaframleiðslu með góðum árangri. Búa fleiri hugmyndir í ykkar kolli sem þið eigið eftir að framkvæma eða vilduð gjarnan sjá verða að veruleika? Tónleikar í hlöðunni

Já það er enginn skortur á hugmyndum. Vandinn er að halda aftur af sér. Það er ekki gott að vaða af stað með allt í einu þá er hætta á því að manni fatist flugið. Góðir hlutir gerast hægt.

Hver er ykkar sýn á matvælaframleiðslu í framtíðinni, bæði innlenda og alþjóðlega?

Við sjáum mörg tækifæri í landbúnaði. Þeim er stöðugt að fjölga sem vilja borða heilnæman mat úr sínu nærumhverfi. Á sama tíma finnum við fyrir því að krafan um lægra matarverð er alltaf að vera hærri og svo er það umræðan um matarsóun. Matur á ekki endilega að vera sem ódýrastur. Hann á að vera sem bestur og unnin úr bestu mögulegu hráefnum. Ástæðan fyrir allri þessari matarsóun er að stórum hluta vegna þess hve matur er ódýr. Við þurfum að bera virðingu fyrir mat og vanda valið. Nýta afganga betur og fleiri þurfa að uppgötva töfra naglasúpunnar! Það eru auðvitað blikur á lofti út um allan heim. Stór fyrirtæki eru að taka yfir landbúnaðarframleiðslu á kostnað fjölskyldubúsins. Kynslóðaskipti í landbúnaði ganga illa bæði hér á landi og úti í heimi. En aftur á móti er hugsunarháttur neytenda kannski alltaf að færast meira í þá átt að það skiptir máli hvaðan varan kemur og með hvaða hætti hún er framleidd. Hér á landi er aragrúi af ónýttum tækifærum í landbúnaðarframleiðslu og það þarf að halda áfram með og efla nýsköpun, lífræna framleiðslu og markaðssetningu landbúnaðarafurða.

Hvað finnst ykkur mikilvægast að ykkar framleiðsla skili eftir sig í huga neytenda?

Að fólk staldri við. Hugsi um hvað það er að borða og hvaðan hráefnin koma. Að það sé örlítið skemmtilegra að borða mat sem er búinn til með hjartanu.

Nú eruð þið á leið til Mílanó á ráðstefnuna, We Feed the Planet, sem verðugir fulltrúar Slow Food ungliðahreyfingarinnar á Íslandi – hvaða væntingar hafið þið til ráðstefnunnar? 

Miklar! Við erum rosalega spennt og þakklát fyrir þetta tækifæri. Það er ótrúlega mikilvægt fyrir okkur sem vinnum hérna austur á fjörðum á hjara veraldar að fá að taka þátt í alþjóðlegri umræðu um framtíð matvælaframleiðslu í heiminum. Við erum sannfærð um að við eigum eftir að koma heim innblásinn, með fullt af fróðleik í farteskinu.

Takk fyrir viðtalið og góða ferð til Mílanó!

 

Scroll To Top

Slow Food í Reykjavík notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Stillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.


Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á slowfood.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Decline all Services
Accept all Services