Home / Fréttir / Pistill frá gjaldkera: TERRA MADRE SALONE DEL GUSTO 2020

Pistill frá gjaldkera: TERRA MADRE SALONE DEL GUSTO 2020

Annað hvert ár er haldin alþjóðleg Slow Food hátíð sem kallast Terra Madre Salone del Gusto og er haldin í Tórínó á Ítalíu. Hátíðin sameinar fólk úr öllum heimshornum þar sem virðing fyrir mat, jörðinni og framtíð okkar er í forgrunni. Í ár vorum við hjónin búin að skipuleggja okkar fjórðu ferð á hátíðina, en sú ferð var aldrei farin vegna ástandsins í heiminum.

Til þess að átta sig á umfangi hátíðarinnar þá eru ca 7.000 fulltrúar frá Terra Madre, rúmlega 800 einstaklingar og smáfyrirtæki frá 150 löndum sem sýna sína framleiðslu og ca 220.000 manns sem heimsækja hátíðina.

Þessi viðburður er himnaríki fyrir þá sem hafa áhuga á mat og drykk. Þetta er líka einstakt tækifæri til að fræðast um hvað bændur og smáframleiðendur víðs vegar um heiminn eru að gera til að stuðla að aukinni sjálfbærni og líffræðilegum fjölbreytileika.

Hátíðin stendur yfir í 5 daga og hefur verið haldin að hausti til í Tórínó. Dagskrá hátíðarinnar er gríðarlega fjölbreytt og þar ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Fyrir þá sem vilja láta bragðlaukana prófa eitthvað nýtt þá er hægt að velja á milli tuga bragðvinnustofa á hverjum degi. Langar þig að vita hvernig hægt er að para saman belgískan bjór, belgískt súkkulaði og belgískan mat eða viltu smakka mismunandi árganga af Chateau Musar rauðvíni frá Líbanon eða kannski vita hvernig Tokaji hvítvín frá Ungverjalandi parast við geitaosta frá Póllandi. Allt eru þetta dæmi um þann gríðarlega fjölbreytileika sem hægt er að kynna sér í bragðvinnustofunum. Ef hugurinn þyrstir í fróðleik, þá eru fjölmargir fyrirlestrar og málstofur á hverjum degi um fjölbreytt efni, m.a. um sjálfbærni og mikilvægi líffræðilegs fjölbreytileika og hvað bændur og aðrir framleiðendur víðsvegar að eru að gera til að berjast gegn loftlagsbreytingum.

Upplifunin við að ganga í gegnum sýningarsvæðið, skoða og kaupa vörur frá smáframleiðendum frá öllum heimshornum er einstök. Skilningarvitin verða fyrir áreiti úr öllum áttum og má segja að eftir fjóra, fimm daga í þessu umhverfi þá séu þau alveg mettuð. Það breytir hins vegar ekki því að þegar dagskrá fyrir næstu hátíð birtist þá er lagst yfir hana og næsta ferð skipulögð út í æsar með það að markmiði að upplifa sem mest og fjölbreyttast.

Eins og áður sagði þá kom heimsfaraldur kórónuveirunnar í veg fyrir að fólk alstaðar úr heiminum kæmi saman í Tórínó í ár til að halda þrettándu Terra Madre Salone del Gusto hátíðina. Í stað þess að leggja hendur í skaut þá hafa skipuleggjendur sett saman mettnaðarfulla, fjölbreytta og skemmtilega dagskrá sem verður fyrst og fremst á netinu og stendur allt fram í apríl á næsta ári. Það er t.d. hægt að taka þátt í matreiðslunámskeiðum, fylgjast með fyrirlestrum og málstofum.

Kæru Slow Food félagar ég hvet ykkur til að skoða dagskránna sem í boði er og taka þátt,

https://terramadresalonedelgusto.com/en/events/

Með kveðju,

Gunnþórunn Einarsdóttir

Matvælafræðingur og gjaldkeri Slow Food Reykjavík

Scroll To Top

Slow Food í Reykjavík notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Stillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.


Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á slowfood.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Decline all Services
Accept all Services